Eggheimta

Þegar eggbú hafa náð ákveðinni stærð og líklegt að eggin séu þroskuð er réttur tími fyrir eggheimtu. Með ómskoðun um leggöng tæmir læknir eggbúin í eggjastokkunum. Vökvi eggbúsins er sogaður út með fínni nál og safnað í tilraunarglös sem starfsmaður úr hjúkrunarteymi hefur eftirlit með. Fósturfræðingur tekur svo við glasinu og leitar að eggjum í eggbúsvökvanum undir smásjá. Aðgerðin er gerð á skurðstofu, þar sem í boði er að fá verkjalyf og kæruleysislyf og einnig er gerð staðdeyfing í kringum legháls. Á skurðstofunni er að finna skjái svo hægt er að fylgjast með framgangi eggheimtu og jafnvel sjá fyrsta eggið.

Fósturfærðingur hreinsar eggin af blóði og eggbúsvökva með sérstakri lausn. Eggjunum er síðan safnað í ræktunarskál með ætisvökva og þau geymd í hitaskáp þar til þau verða frjóvguð. Eggin þola illa breytingar á umhverfi, svo sem hitasveiflur og ljós. Því þarf meðhöndlun þeirra undir smásjá að vera nákvæm og hröð. Hver eggheimta getur skilað frá 1 eggi upp í 40 en að meðaltali eru það 8-12 egg. Í einstaka tilvikum næst ekkert egg.